Hér getur þú fylgst með hvað ég er að bauka og brasa, hugsanir og vangaveltur, ferðir og upplifanir - Góða skemmtun !!

þriðjudagur, október 04, 2005

Þriðjudagur til þrautar

Æði æði.. það er meira að segja að eftirsókn í fréttir hér á litlu blogg síðunni minni. Þá verð ég nú að fara að tuska mig til og reyna að þóknast þessari eftirspurn.

Fréttir:
1. Vinnan: Er að vinna hjá fyrirtæki sem er prentsmiðja og teiknistofa (auglýsingarstofa) undir sama þaki. Og ég er að sjálfsögðu á teiknistofunni. Svolítið skemmtileg blanda af fólki. Því þarna eru prentarar sem sjá fyrir verkamannsandanm og bröndurunum sem því fylgir, hönnunarheimurinn með frjálslega hugsandi og hugmyndaríku fólki (og einstaka furðufuglum) og svo er að sjálfsögu hið týpiska skrifstofufólk (yfirmenn, yfir-yfirmenn, bókhaldarar, símadömur, sölumenn og ..) sem er ein tegundin í viðbót af fólki. Svolítið íhaldsamt, bæði í hugsun og klædaburði og allt öðruvísi brandarar en hjá prenturunum :-) Þetta er í rauninni alveg dýrleg blanda af fólki úr öllum hillum samfélagsins. Mér finnst það æði og í raun er þetta draumastarfið mitt! Gallinn er svo bara sá að ég er ekki fastráðin ..ennþá (bjartsýni Íslendingurinn fyrnist seint). Ég er sem sé enn að vinna í því að sannfæra fólkið um að það geti ekki án mín verið :-) Fæ kannski einhver svör í lok vikunnar.

2. Íbúðin: já... ég er svona hægt og rólega að koma mér fyrir og þar undirstrika ég "hægt og rólega"! Þetta kemur allt með kalda vatninu. Reynslan hefur kennt mér að ég er einstaklega afkastamikil rétt áður en ég fæ heimsókn svo ég mæli eindregið með því að þið tilkynnið komu ykkar hér á Thuresensgade. Þá fer kannski eitthvað rótækt að gerast. Annars líður mér alltaf betur og betur hérna og barasta komin með smá heimilisfiðring í kroppinn yfir þessu öllu. Ótrúlegt hvernig við mannfólkið erum. Við erum varla búin að stinga síðasta hælnum í tjaldið áður en við erum farin að tala um að fara "heim" í tjaldið eða í útlöndum á einhverju tveggja stjörnu lulla hótelherbergi og það verður líka, á methraða, að heimili manns. En... þegar maður flytur með alla sýna búslóð og þar að auki löglega skráður til húsa í viðkomandi íbúð .. já nei nei.. þá tekur það allt í einu marga mánuði að fá þessa blessuðu heimilistilfinningu.

3. Hvað er ég að gera þegar ég er ekki að vinna og ekki þykjast vera innanhúsarkítekt?: Hmmm.. hvar á ég að byrja? Ég hef fengið mörg góð ráð frá enn fleiri vinum og vandamönnum undanfarna mánuði. Sumt heyrir maður og gerir ekkert í því, sumt heyrir maður alls ekki, sumt þykist maður heyra og svo eru nokkur tilvik þar sem maður heyrir og gerir. Eitt af þeim ráðum sem ég hef tekið alvarlega í bókstaflegri merkingu er: Reyndu að hafa eitthvað fyrir stafni: ný áhugamál, vera með vinum og stunda íþróttir. Þetta eru orðin hálfgerð trúarbrögð hjá mér þar sem ég hef verið dugleg við að bauka ýmislegt. Ég fer út að hlaupa og fer í hjólatíma. Er byrjuð í veggjaklifri og yoga og er að athuga með reiðnámskeið. Fer sennilega í könnunarleiðangur nr. 2 á laugardaginn og vonast til að komast á bak. Svo hef ég sjaldan farið eins mikið í bíó og kaffihús eins og ég hef gert undanfarna mánuði. Og nei, ég er ekki búin að fara á nein stefnumót hér í baunaveldi. Hef ekki tíma í það ...hahahaha! Svo eins og þið heyrið þá er nóg að gera hjá mér en alls ekki of mikið.

Jæja, kæru vinir og vandamenn. Núna er ég orðin ansi sibbin og ætla að fara að bursta tennurnar og stinga mér í háttinn. Það var nú bara nokkuð gaman að sitja hér upp í sófa og skrifa til ykkar. Hver veit nema þetta verði fastur viðburður.

Kærar kveðjur og faðmlög frá Gyðunni

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Heil og sæl, Gyðan mín!
Skemmtilegur lestur ... ég er í hádegismat hérna á Lundinum og er á hlaupum ... búin að fara í háls-og herðaleikfimi í ca 15 mín í morgunsárið, sjúkraþjálfun og þaðan í tækjasal. Hárþvottur, matur, hérna, iðjuþjálfun, ganga, streitulosun og slökun og þá er kl. orðin 16.15 og degi tekið að halla ... þá er maður nú alveg búin á því og gamla konan hvílir sig fram að kvöldmat ...sofnuð kl.22 og skyldi engan furða:-)
Kær kveðja,
Mamma

5/10/05 2:19 e.h.

 
Anonymous Nafnlaus said...

Já svona á að gera þetta, enga leti takk fyrir, annað hvort er maður með bloggsíðu og færir fólki fréttir eða bara sleppir því ha!! Ég er s.s. ekki með bloggsíðu enda aldrei neitt að frétta af mér. En án gríns þá finnst mér frábært að geta fylgst með hvað á daga þína hefur drifið elsku Gyða mín, þá ertu einhvernvegin nær okkur hér.
Vonandi fer þetta allt vel með vinnuna hjá þér. Kveðja frá Kóngafólkinu. (Ætla aldrei að hætta að vera aðalborin þó ég flytji mig um set)
Sigga frænka

6/10/05 6:59 e.h.

 
Anonymous Nafnlaus said...

Hæ Gyða mín!
Við erum búin að fá húsið og þar er sko nóg pláss fyrr góða gesti!!!!
Sigga frænka

8/10/05 4:01 e.h.

 
Anonymous Nafnlaus said...

Til hamingju med nýja vefinn .. er búinn að skoða hann og hef verið að reyna að senda á þig en gengið eitthvað undarlega en núna geri ég eina tilraun í viðbót
afi

8/10/05 6:50 e.h.

 
Anonymous Nafnlaus said...

Sæl, Gyða mín!

Smá laugardagskvöldskveðja,
Mamma

8/10/05 6:52 e.h.

 

Skrifa ummæli

<< Home